145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

lengd þingfundar.

[10:08]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara að munnhöggvast við hæstv. fjármálaráðherra en það eru efnislegar ástæður fyrir lengd þessarar umræðu.

Við vildum gefa stjórnarþingmönnum færi á að skipta um skoðun og afstöðu til þess hvort aldraðir og örorkulífeyrisþegar ættu að njóta sannmælis á við aðra í samfélaginu. Við höfum fengið það skýrt frá hæstv. fjármálaráðherra að hann vill setja þá skör lægra en launafólk.

Við höfum viljað gefa stjórnarmeirihlutanum færi á að sjá að sér hvað varðar það að tryggja Landspítalanum fullnægjandi fjármagn í samræmi við óskir yfirstjórnar hans. Því miður er ekki að sjá að stjórnarmeirihlutinn sjái að sér þar.

Í þriðja lagi höfum við viljað skapa svigrúm fyrir hæstv. menntamálaráðherra til þess að koma fram með breytingar hvað varðar Ríkisútvarpið. Við sjáum því miður að forusta stjórnarflokkanna virðist einbeitt í því að sverfa að Ríkisútvarpinu og brjóta þá pólitísku samstöðu sem hefur tekist að mynda á vettvangi stjórnar Ríkisútvarpsins um framtíðarhorfur þess.

Þetta hefur allt orðið ljóst í þessari umræðu. Á henni hefur teygst vegna þess (Forseti hringir.) að við höfum verið að gefa stjórnarflokkunum færi á því að skipta um skoðun í mikilvægum málum, en einhvern tíma hljótum við líka að sjá að það er fullreynt.