145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

lengd þingfundar.

[10:09]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er mikið talað um einhvers konar met í umræðum og annað slíkt. Mig langar þá að rifja upp að það met sem við erum sögð hér vera að slá var sett í fjárlagaumræðunni 2012. Þá voru engar sérstakar efnislegar breytingartillögur lagðar fram af þáverandi stjórnarandstöðu en engu að síður taldi hún mikilvægt að tala vel og lengi til þess að ganga endanlega frá stjórnarskránni og koma í veg fyrir að hún yrði tekin til afgreiðslu. Það var baráttan þá.

Baráttan núna snýst efnislega um það að tryggja að eldri borgarar og öryrkjar fái að minnsta kosti sambærileg laun og lágmarkslaun í landinu. Finnst einhverjum það til of mikils mælst? Um það snýst baráttan hér.

Virðulegi forseti. Það er við ofurefli er að etja þegar við erum með fjármálaráðherra sem telur að það þurfi að hafa eitthvert sveltikerfi í (Forseti hringir.) gangi til þess að hvetja menn áfram þegar kemur að lífeyri (Gripið fram í.) í landinu. Það er ekki sú staða sem við viljum halda öryrkjum og eldri borgurum í og þess vegna erum við að berjast hér.