145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

störf þingsins.

[10:21]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera kristna trú að umræðuefni í þessum stutta pistli.

Reykjavíkurborg með Vinstri græna og Pírata í fremstu víglínu ráðast gegn þjóðtrúnni og kristinni trú í landinu. Þannig hefur stjórn Pírata í Reykjavík hvatt leikskóla, grunnskóla og frístundaheimili Reykjavíkurborgar til að fara ekki í kirkjuheimsóknir í desember líkt og tíðkast hefur. Ég velti því fyrir mér, virðulegi forseti, hvaða skaði hafi orðið af slíkum heimsóknum, hvaða börn hafa skaðast af því að heimsækja kirkjur landsins og fá að upplifa kærleikann. Reykjavíkurborg sker sig úr varðandi reglur 12 sveitarfélaga um samskipti skóla við trú- og lífsskoðunarfélög. Að mati borgarfulltrúa Vinstri grænna er hvorki heimilt að fara í kirkjuheimsóknir á aðventunni né taka við gjöfum eins og Nýja testamentinu frá Gídeonfélaginu á Íslandi.

Í tillögum menntamálaráðuneytisins um samskipti skóla og trúfélaga segir í 2. lið:

„Heimsóknir í kirkjur í tengslum við stórhátíðir kristninnar telst hluti af fræðslu um trúarhátíðir og menningarlega arfleifð þjóðarinnar.“

Virðulegi forseti. Allt frá árinu 1954 hefur Gídeonfélagið á Íslandi gefið 14 ára nemendum grunnskóla Nýja testamentið, þessa merkilegu bók sem allir hafa gott af að kynna sér. Það er ólíðandi hvernig borgarfulltrúar hjá Reykjavíkurborg koma fram í samskiptum sínum við þjóðkirkjuna. Kristin trú og gildi eru hluti af grunngildum samfélagsins á Íslandi og hafa verið í meira en þúsund ár.

Virðulegi forseti. Við þurfum að taka höndum saman og standa vörð um þjóðkirkjuna og kristna trú í landinu og láta ekki minni hluta þjóðarinnar, algjöran minni hluta þjóðarinnar, stjórna því hvort börn fái að kynnast kristinni trú eða ekki.


Efnisorð er vísa í ræðuna