145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

störf þingsins.

[10:33]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Loftslagsráðstefnan í París um daginn skilaði áþreifanlegum árangri. Það voru mjög jákvæðar fréttir.

Þegar loftslagsráðstefnan stóð yfir héldum við í Bjartri framtíð nokkra fundi um umhverfismál og einn þeirra var um áhrif kjötneyslu á umhverfið. Það hljótast töluverð neikvæð umhverfisáhrif af ræktun sérstaklega nautgripa og þeirri staðreynd að við Vesturlandabúar neytum sífellt meira af kjöti og mjólkurvörum.

Þetta er málaflokkur sem hefur ekki verið mjög mikið ræddur en er mjög nauðsynlegt að ræða því að það er í rauninni þannig að ef allir mundu borða jafn mikið kjöt og við Vesturlandabúar, ég tala ekki um Bandaríkjamenn, þá stæði jörðin ekki undir því álagi. Það þarf gríðarlega orku í þessa framleiðslu, mikið vatn og það er talið að einn þriðji af ræktunarlandi í heiminum fari beinlínis í að rækta fóður. Það væri skynsamlegra ef við mundum borða þetta fóður beint.

Nú er það ekki þannig að allir fari að gerast grænmetisætur á morgun, held ég, og svo mikið er víst að ég mundi eiga mjög erfitt með það. En það er mjög mikilvægt að við séum meðvituð um þetta og að við sóum ekki mat, hendum alls ekki kjöti eða mat yfir höfuð, það er óásættanlegt. Við þurfum að fara að horfa til þess að draga úr kjötneyslu.

Það sem mér finnst líka vera spennandi eru hugsanleg tækifæri fyrir íslenskan landbúnað í þessu samhengi. Við eigum landsvæði, við eigum nóg af vatni. Vissulega yrði framleiðslan dýrari, en er það kannski ekki bara í lagi? Eigum við ekki að borga raunverulegt verð fyrir vöru? Það er kannski ekki eðlilegt að vera með nautalund í matinn nokkrum sinnum í mánuði.


Efnisorð er vísa í ræðuna