145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að tala um fjárlagaumræðuna og vinnulag þingsins og byrja á því sem hæstv. fjármálaráðherra sagði áðan sem mér misbauð. Hann talaði um að umræðan væri löng og vitlaus. Mér finnst það mjög óviðeigandi. Hér er verið að tala um orðfæri fólks í pontu Alþingis og talað um að orðræðan hafi mjög lengi ekki verið góð. Það er ekki til þess fallið að bæta hana þegar hæstv. ráðherra lætur svona út úr sér og heldur því fram að hér segi fólk ekki annað en einhverja vitleysu í ræðustól. Ég get ekki tekið undir það. Ég hef rætt hér fjárlögin vel og lengi og tekið nýtt fyrir nánast í hvert skipti sem ég hef farið í ræðustól. Það er nefnilega af nógu að taka. Hæstv. ráðherra verður bara að átta sig á því að hann kom með mjög illa undirbúið frumvarp inn í þingið. Meðal annars þess vegna dregst umræðan á langinn. Svo er auðvitað barátta fyrir ákveðnum málum sem við erum hér að tala fyrir og ekki bara við, samstöðufundur af hálfu öryrkja hefur á hverjum degi núna í nokkra daga verið fyrir utan þinghúsið þar sem við þingmenn erum hvött til þess að standa vörð um þá sem minna hafa á milli handanna. Við erum að reyna að gera það með því að fá fólk til samtals úr meiri hlutanum. Það hefur að vísu ekki gengið og hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt að meira verði ekki gert þannig að líta beri svo á að hann telji þetta bara gott í bili. Hann hefur ekki sagt okkur frá því hvernig hann hyggist, eða hvort, ná lágmarkslaunum, þ.e. 300 þús. kr., til handa þessum hópum. Það hefði verið ágætt ef hann hefði komið fram með einhverjar hugmyndir í því sambandi, hvort hann ætlaði að gera það á næsta ári, því þarnæsta eða 2018.

Virðulegi forseti. Þetta er stór hópur sem skiptir máli og við eigum (Forseti hringir.) ekki að senda fólk í fátækt inn í jólin.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna