145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

störf þingsins.

[10:45]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að umboðsmaður Alþingis hefur óskað eftir því við forstjóra Útlendingastofnunar að hann fái almennar upplýsingar um málsmeðferð og rannsókn umsókna um svokölluð mannúðarleyfi af heilbrigðisástæðum. Tilefnið er albönsku fjölskyldurnar sem farnar eru úr landi með tvö langveik börn. Ég hef lýst því yfir að ég telji að ekki verði betur séð en að barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna sem var lögfestur hér á landi í febrúar árið 2013, og við Íslendingar höfum stært okkur af, t.d. í samstarfi við aðrar Norðurlandaþjóðir því að Svíar og Danir hafa ekki gert það, hafi verið brotinn með framgöngu Útlendingastofnunar.

Þetta er mjög alvarlegt. Það sem styður það sem ég held fram, og hef vitnað í sjálfan sáttmálann, er að komið hafa fram efasemdir hjá íslenskum læknum um hvort umræddir drengir fái þá læknisþjónustu sem þeir þurfa í heimalandinu. Aðildarríki að barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna viðurkenna rétt barns til að njóta besta heilsufars sem hægt er að tryggja og aðstöðu til læknismeðferðar og endurhæfingar. Aðildarríkin skulu kappkosta að tryggja að ekkert barn fari á mis við þennan rétt sinn til að njóta slíkrar heilbrigðisþjónustu.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna