145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[10:48]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Mig langar að byrja á því að brúa þá umræðu sem hér hefur farið fram yfir í umræðu um fjárlög ríkisstjórnarinnar. Hér var vikið að embætti umboðsmanns Alþingis og vísað í þarfa athugun sem hann væri að ráðast í og sneri að hælisleitendum og framgöngu Útlendingastofnunar. Ég tek undir það, það er þarft að umboðsmaður Alþingis beini sjónum að þessu. Jafnframt fagna ég því að hæstv. innanríkisráðherra kveðst vera að skoða málið eins og fram hefur komið hér á þingi og í fjölmiðlum. En ástæðan fyrir því að ég vek máls á þessu í tengslum við fjárlagaumræðuna er sú að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur einróma óskað eftir því við fjárlaganefnd og í kjölfarið við Alþingi, sem fer með fjárveitingavaldið, að 15 millj. kr. verði varið til embættis umboðsmanns Alþingis til viðbótar því sem áður hafði verið hugsað til að sinna málum af þessu tagi, þ.e. til að geta ráðist í forkönnun og rannsóknir sem gætu haft fyrirbyggjandi áhrif.

Mig langar líka í upphafi máls míns að fara nokkrum orðum um umræðuna eins og hún hefur þróast og þróaðist í nótt. Hún var að mörgu leyti mjög góð. Það eru þrír þættir sem stjórnarandstaðan hefur einkum staðnæmst við í þessari umræðu. Í fyrsta lagi hafa menn horft til stöðu öryrkja og aldraðra og vakið máls á tillögum sem stjórnarandstaðan hefur sett fram í tengslum við fjáraukalögin, um viðbótarfjármagn til almannatrygginga til að standa straum af afturvirkum hækkunum til þessara hópa sambærilegum þeim sem hefur verið samið almennt um á vinnumarkaði. Þetta er réttlætismál sem samstaða er um í stjórnarandstöðunni og ég hygg að mjög víðtækur stuðningur sé við í þjóðfélaginu almennt. Það hafa verið boðaðir margir samstöðufundir utan þingsins. Ég hygg að einn slíkur sé á döfinni síðar í dag. Þeir sem þar koma fram eiga eflaust eftir að hlusta eftir því hvort ríkisstjórnin muni koma á einhvern hátt til móts við þær áherslur sem við höfum sett fram. Auk tillagna okkar um viðbót í fjáraukann höfum við lagt til að það komi til viðbótarhækkun til almannatrygginga og þar með öryrkja og aldraðra upp á tæpa 5,5 milljarða kr. Við horfum ekki síst til lægstu tekjuhópanna. Við erum að tala um lægstlaunaða fólkið í landinu, að það sitji ekki við lakari kjör um þróun síns lífsviðurværis en aðrir hópar í landinu. Þetta er fyrsti áhersluþáttur stjórnarandstöðunnar við þessa umræðu.

Síðan höfum við staðnæmst við heilbrigðiskerfið. Við höfum horft til heilsugæslunnar og sérstaklega til Landspítalans sem kjölfestunnar í íslenska heilbrigðiskerfinu. Við höfum vakið máls á að samkvæmt upplýsingum sem koma innan frá Landspítalanum, bæði frá stjórnendum hans og þeim sem koma að margvíslegri ráðgjafarþjónustu þar, skorti 3 milljarða að lágmarki til þess að Landspítalinn geti rekið sig og sinnt þeim lögbundnu skyldum sem á honum hvíla.

Í þriðja lagi horfa menn til Ríkisútvarpsins og furða sig á að ekki sé vilji til að bæta hag þess, eða öllu heldur að það sé vilji til þess að skerða tekjur Ríkisútvarpsins. Við erum ekki að tala um neinar stórar upphæðir fyrir hvern einstakling í landinu. Ég sá ekki betur en að talað væri um 116 kr. á mánuði sem um væri að tefla. Þetta eru ekki miklir peningar en þegar saman kemur getur þetta skipt sköpum um rekstur Ríkisútvarpsins.

Það er einn þáttur sem mig langar til að víkja að í sambandi við Ríkisútvarpið. Hugrenningatengslin eru þau að einn af helstu þáttagerðarmönnum Ríkisútvarpsins á Rás 2 hefur skrifað hugleiðingar sínar um málið og velt fyrir sér hvort standi til að ganga milli bols og höfuðs á þessari stofnun. Sá einstaklingur sem í hlut á hefur staðið mjög framarlega í að framreiða poppmenninguna, dægurlagamenninguna. Mér finnst menn oft tala um það af léttúð að óhætt sé að selja Rás 2 eða gefa hana frá sér vegna þess að þar sé engin menning. Þetta er mikill misskilningur. Dægurmenningin er líka menning. Ef hlúð er að henni eins og viðkomandi útvarpsmaður hefur gert, Ólafur Páll Gunnarsson heitir hann, þá er þar um að ræða sögulegar heimildir. Það hefur verið staðið myndarlega að framreiðslu þess efnis sem ég vil alls ekki að við gerum lítið úr. Fyrir utan það er Rás 2 mikilvæg tekjulind fyrir Ríkisútvarpið. Það var ein ástæðan fyrir því að hún var yfir höfuð sett á laggirnar á níunda áratug síðustu aldar. Og jafnvel þótt menn hafi orðið ósáttir við Ríkisútvarpið á einhverjum stundum — það hef ég oft orðið, ekki síst í ljósi harkalegra uppsagna, jafnvel alveg fram á þennan dag — þá verðum við að horfa til þess að mikilvægt er að viðhalda þessari stofnun sem menningarstofnun og sem þungamiðju og kjölfestu í íslenskum fjölmiðlaheimi.

Því miður eru ræðurnar sem við flytjum nú ekki ýkja langar. Þær eru takmarkaðar við tíu mínútur og ekki hægt að fara ítarlega í einstök mál, en þó gerðist það í þessu knappa ræðuformi í gær. Þar vísa ég sérstaklega til umræðu um Ríkisútvarpið. Hún tók nefnilega stakkaskiptum þegar hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra Illugi Gunnarsson kom í salinn til að taka þátt í umræðunni en ekki bara til að mæta og hlusta. Hann tók þátt í umræðunni og varð við óskum þingmanna um að skýra sín sjónarmið. Nú er ég á þeirri skoðun að þegar þingmál er komið frá ríkisstjórn fari það inn í þingsal og sé framvegis á forræði þeirrar nefndar sem viðkomandi mál heyrir undir, í þessu tilviki fjárlaganefndar. Það er á forræði fjárlaganefndar að svara fyrir og taka á breytingum og þingsins að fjalla um málin. En þetta er ekki alveg svo einfalt vegna þess að fjárlögin tengjast stefnu og markmiðssetningu framkvæmdarvaldsins og því er eðlilegt að umræða um þau markmið fari fram samhliða því að við ræðum um fjárveitingar til viðkomandi starfsemi. Þess vegna var mjög gagnlegt að fá ráðherrann til umræðunnar. Síðan er náttúrlega hitt, að þingið er því miður allt of leiðitamt gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það er ein ástæðan fyrir því að við þurfum að hafa þennan valdapóst til staðar þegar við ræðum málin.

Þess vegna, hæstv. forseti, ætla ég að enda ræðu mína á því að segja að ég sakna þess að hæstv. heilbrigðisráðherra skuli ekki hafa orðið við kalli mínu og annarra um að koma hingað til umræðunnar og ræða við okkur um hallareksturinn á Landspítalanum og gera grein fyrir sínum sjónarmiðum hvað það varðar (Forseti hringir.) og ásökunum okkar um að hann sé að ráðast í kerfisbreytingar sem ekki hafi farið fram nægileg, (Forseti hringir.) lýðræðisleg umræða um varðandi heilsugæsluna sérstaklega.