145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[10:58]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mér fannst hv. þingmaður draga mjög vel saman hvað það er sem við höfum lagt áherslu á og viljum berjast hér fyrir á þessum síðustu dögum fyrir jól. Við viljum auðvitað reyna að hafa áhrif á stjórnarmeirihlutann með þessi stóru mál sem eru kjör aldraðra og öryrkja. Við höfum verið að miða við prósentuhækkun þar sem er í samningum VR og Flóabandalagsins. En mér finnst mikilvægt að fram komi að Landssamband eldri borgara er að miða við hærri prósentutölu á árinu 2015 en við notum, enda höfðum við svo sem bara þennan eina samning undir.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvað honum finnist um það að stefnumál í svona stórum málaflokkum séu sett fram í einni, tveimur setningum í fjárlagafrumvarpi, í texta með fjárlagafrumvarpi, eða texta með breytingartillögum. Þetta gerðist fyrir árið 2015 varðandi framhaldsskólann þegar bara ein setning var í textanum um menntamálaráðuneytið um að fara ætti út í fjöldatakmarkanir í framhaldsskólum og þrengja aðgang fyrir þá sem eru 25 ára og eldri að bóknámi. Þarna var stór stefnumörkun í menntamálum sett fram í þeirri einu setningu. Það eina sem við höfum í rauninni séð á prenti um að fara eigi út í frekari einkarekstur án umræðu á heilsugæslunni er í texta við breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið. Sú setning var reyndar tekin út en hæstv. fjármálaráðherra er búinn að undirbyggja hana samt aftur í viðtölum. Hvað finnst hv. þingmanni um þetta vinnulag?