145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:05]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er alveg hárrétt. Það var einmitt hv. þm. Oddný Harðardóttir sem óskaði sérstaklega eftir nærveru hæstv. menntamálaráðherra til að ræða stöðu Þjóðskjalasafnsins. Síðan upplýsist í umræðunni þá hversu fráleit þessi hugmynd er að hans mati. Eftir sem áður er Alþingi ætlað að samþykkja heimild til fjármálavaldsins í Stjórnarráðinu að ganga frá þeirri sölu. Þá er komin þessi heimild, en hinn faglegi aðili telur þetta óráðlegt, hvers vegna í ósköpunum þá að setja þetta inn í heimildarsamþykktir Alþingis? Mér finnst því allt bera að sama brunni.

Okkur ber að ræða hlutina opinskátt og að fram fari opin umræða um málið. Þess vegna hefði ég talið að það væri æskilegt að fá hæstv. heilbrigðisráðherra til fundarins. Það væri fróðlegt að heyra hv. formann fjárlaganefndar útlista fyrir okkur líka hvað vakir fyrir meiri hluta þeirrar nefndar varðandi nýju heilsugæslustöðvarnar. Er meiri hlutinn þar á því máli að bjóða eigi þann rekstur út? Mér finnst það vera sjónarmið að einkavæða, bjóða út og markaðsvæða heilbrigðisþjónustuna. Ég er ósammála því sjónarmiði, en það sjónarmið er til. Það er mikið minnihlutasjónarmið á Íslandi. Það er ríkjandi í ákveðnum hópum hér innan veggja Alþingis. En þeir hópar gera sér grein fyrir að það er minnihlutaviðhorf í þjóðfélaginu. Þess vegna þarf það að fara leynt. Það er ámælisvert að við fáum ekki heiðarlega, opna umræðu um málið. Það er það sem við höfum verið að kalla eftir og margir leyfa sér að kalla málþóf.