145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:13]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er algerlega sammála þessu. Það er rétt sem hv. þingmaður bendir á, að víða þar sem horfið hefur verið inn á þessa braut eru menn að hverfa frá henni. Ástæðan er sú að þegar málin eru gerð upp hefur komið í ljós að í stað þess að búa til markvissara kerfi, skjótvirkara og markvissara, er kerfið flóknara og dýrara. Þannig hefur líka komið í ljós að í dreifbýli hafa menn ekki séð fengsæl fiskimið að róa á. Þar hefur þjónustan jafnvel verið skert. Í þéttbýli hefur ekki verið eins eftirsóknarvert að sinna fátækustu hlutunum því að þar er aftur ekki um að ræða hin fengsælu mið. Bæði forðast menn þetta sem sækjast eftir ávinningi í peningalegu tilliti vegna þess að þessu fylgja líka ýmis félagsleg vandræði sem eru tengdari fólki sem býr við erfiðan kost en hinum sem eru sjálfráða. Þannig að þetta snýst um gæði, ég tek undir það. Þetta snýst líka um jafnræði, að þegnarnir í landinu búi við sama kost. Þetta snýst líka um það. Mér finnst þessi umræða vera að leiða margt merkilegt og gott í ljós, sumt er verið að minna okkur á og er þarft. Til dæmis á Norðurlöndum, í Danmörku, þar geta einstaklingar gengið í gegnum lækningar við erfiðum sjúkdómum án þess að lyfta nokkurn tíma upp veski sínu. Gott ef það var ekki hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir (Forseti hringir.) sem benti á það við umræðuna í gær. Þetta á að vera okkur umhugsunarefni.