145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:16]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er bara ein lítil spurning sem mig langar að beina til forseta. Í gær óskaði ég eftir því að hæstv. heilbrigðisráðherra yrði viðstaddur þessa umræðu og gæfi okkur sýn sína á þau álitamál sem hér hafa komið fram. Hér er því til dæmis haldið fram að 3 milljarða skorti til að Landspítalinn geti rekið sig og sinnt þeim lögboðnu skyldum sem á honum hvíla. Hver eru viðhorf hæstv. heilbrigðisráðherra? Við heyrðum viðhorf hæstv. menntamálaráðherra í gær varðandi Þjóðskjalasafnið og framlög til Ríkisútvarpsins. Gætum við fengið að heyra viðhorf hæstv. heilbrigðisráðherra einnig gagnvart spurningu um einkavæðingu? Eigum við ekki rétt á því að fá umræðu um það? Er litið á þetta sem eitthvert skrýtið áróðursbragð? Er þetta ekki eðlilegur hluti af (Forseti hringir.) vandaðri málefnalegri umræðu um fjárlögin? Hefur eitthvað (Forseti hringir.) heyrst frá hæstv. heilbrigðisráðherra? (Forseti hringir.) Margoft er búið að segja okkur að þessum skilaboðum hafi verið komið á framfæri.