145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:18]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er eiginlega hálfgert klámhögg að við skulum vera í þeirri stöðu að hafa hæstv. heilbrigðisráðherrann ekki viðstaddan alla þessa umræðu eins og athugasemdirnar og málflutningurinn er þungur varðandi útkomu heilbrigðiskerfisins í fjárlagafrumvarpinu, sérstaklega fjárveitingarnar til Landspítalans en líka til annarra heilbrigðisstofnana eins og á Akureyri. Í ljósi umræðunnar um einkavæðingaráform í heilsugæslunni sem hefur staðið núna linnulaust í á aðra viku þá æpir fjarvera heilbrigðisráðherra á okkur. Það er alveg með ólíkindum að ráðherrarnir í þessum þungu málaflokkum skuli hafa verið fjarverandi nánast allan tímann með þeirri undantekningu sem hefur verið nefnd hér með hæstv. menntamálaráðherra og félagsmálaráðherra. Að öðru leyti þá hafa þeir verið fjarverandi og það er átakanlegt.