145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:37]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann nefndi ýmsar aðgerðir og annað slíkt og má segja að í fjárlagafrumvarpinu sé gert ráð fyrir því að reyna að stytta biðlista og það er vel, en það er náttúrlega einangraður hluti frumvarpsins þar sem eingöngu er tekið á því en ekki mörgu öðru.

Mig langaði að ræða aðeins við þingmanninn um þau svör sem við fengum frá velferðarráðuneytinu við nokkrum spurningum. Spurt var hvort bætur mundu hækka í samræmi við lágmarkslaun. Það kemur fram í svörunum að ekki liggi fyrir hvernig þær muni hækka árin 2017–2019. Það var líka spurt um það hversu margir bótaþegar byggju við fátækt. Það kemur fram að hlutfall atvinnulausra og öryrkja sem skorti efnisleg lífsgæði árið 2013 var 21,5% á meðal atvinnulausra og 24,6% á meðal öryrkja. Það er svakalega hátt hlutfall ef fjórðungur öryrkja býr við skort á efnislegum lífsgæðum. Það er það sem við höfum verið að tala hvað heitast fyrir hér á þingi, að bæta úr því. Þeir sem voru undir lágtekjumörkum það ár voru tæp 10% landsmanna og stór hluti þeirra á leigumarkaðnum, 46%, þar voru einhleypir stærsti hópurinn og einstæðir foreldrar rúm 27%.

Mér hefur fundist að hér sé verið að tala fyrir einhverju sem á að bæta hag þessa fólks, ekki í gegnum hækkanir afturvirkt á þessu ári heldur í gegnum væntanlegan húsnæðisstuðning sem hefur ekki einu sinni verið tekinn fyrir á þingi og hefur ekki verið afgreiddur. Gert er ráð fyrir því sisvona að það geti gengið í gegn og komi öllum þessum hópum til góða þrátt fyrir ýmsar (Forseti hringir.) aðvaranir sem hafa verið settar fram af hálfu fjármálaráðuneytisins meðal annars varðandi þau frumvörp.