145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:44]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins í framhaldi af því sem hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir ræðir hér við mig í seinna andsvari, þ.e. framlög til heilbrigðismála, þá sérstaklega til Landspítalans, þjóðarsjúkrahússins, þá er það auðvitað hárrétt og hefur ekki verið hrakið að framlög til tækjakaupa og annars eins og hv. þingmaður var að tala um samkvæmt töflu sem birt hefur verið frá OECD eru afar lág. Erum við ekki á milli Mexíkós og Grikklands, var ekki Mexíkó lægst en við með innan við 0,1%? Ég hef ekki heyrt að menn hafi andmælt þeim gögnum. Er það ekki rökstuðningur fyrir því sem við vorum að tala um áðan og verður væntanlega rætt í öðru andsvari á eftir um fjárframlög til spítalans? Við verðum að horfa á þetta allt saman í heild, bæði framlög til rekstrar og til tækjakaupa og til að þjálfa starfsfólk upp til að nota tækin, tökum sem dæmi jáeindaskannann eða skurðþjarkana. Það kostar sitt og það kostar húsnæði og það kostar alls konar umstang. Að mati Landspítalans hefur ekki verið tekið á þessum þáttum.

Síðan ætla ég í lokin að segja varðandi það sem hv. þingmaður talaði um, ef fjárlög verða samþykkt eins og þau líta út fyrir í dag þar sem stjórnendur Landspítalans telja að vanti 3 milljarða á næsta ári, þá held ég að það gerist sjálfkrafa að stjórnendur Landspítalans fari að aðlaga sig að þeim fjárlögum, þeim ber að gera það. Þá verður farið að skoða hvar hægt sé að draga saman seglin og það mun skerða þjónustu. Það er borðliggjandi. Það er það sem gerist og það gera ábyrgir stjórnendur ríkisstofnana eins og stjórnendur Landspítalans eru. Það (Forseti hringir.) er þess vegna sem við segjum: Notum ekki þessar villandi tölur (Forseti hringir.) um hækkanir. Styðjumst frekar við raunveruleikann og (Forseti hringir.) hlustum á stjórnendur spítalans.