145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:47]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er svolítill völlur á hv. þm. Kristjáni Möller sem talar mikið um heilbrigðismálin og Landspítalann. Ég er að velta fyrir mér: Er hv. þm. Kristján Möller sami þingmaður og var í síðustu ríkisstjórn? Hann segir að fólk eigi að skammast sín. Hvað gerði hv. þingmaður á síðasta kjörtímabili? Það þurfti að spara. Hvað var sparað? Ársverkum var fækkað um 751, þar af 508 — fimm hundruð og átta — í heilbrigðismálunum, 68%, nærri 70% í heilbrigðismálunum. Var það sama hlutfall og í hinum ráðuneytunum? Nei. Er hv. þm. Kristján Möller stoltur af því? Hann bætti í utanríkismálin. Hann bætti í umhverfismálin. En heilbrigðisráðuneytið mátti hlutfallslega skera tvöfalt meira niður en önnur ráðuneyti.

Ég spyr hv. þingmann: Er hann stoltur af þessu? Var þetta samkvæmt ráðleggingum forstöðumanna Landspítalans? Komu þeir og sögðu: Við skulum taka þetta allt saman, bætið í utanríkismálin og bætið í umhverfismálin? Er það þannig, hv. þm. Kristján Möller? (BjG: … opna sendiráðið.) Var það þannig, hv. þm. Kristján Möller, þegar þið réðuð? (Gripið fram í: Búið að opna …) Þegar þið réðuð (KLM: Búið að opna sendiráð.) tókuð þið heilbrigðismálin massíft niður, miklu meira en nokkuð annað. (Gripið fram í: Það er rangt.) Þessar tölur eru úr svari (Gripið fram í.) fyrrverandi hæstv. (Forseti hringir.) fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar. (Forseti hringir.) Þetta er í þingskjölum og frá ykkur komið. (Forseti hringir.) Var þetta samkvæmt ráðleggingum forstöðumanns og forstjóra Landspítalans?