145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:15]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil aftur vekja athygli á því að bætt var í utanríkismálin og bætt í umhverfismálin og bæði í tölum og hlutfallslega kom sparnaðurinn verst niður í heilbrigðisráðuneytinu. Þetta eru tölur sem komu frá síðustu ríkisstjórn. (Gripið fram í.) Hv. þm. Össur Skarphéðinsson ætti að kynna sér þetta svar ef hann trúir ekki því sem ég segi, en það er í þingskjölum, það er á vefnum. Það var bætt í eftirlitsstofnanir, utanríkismálin, umhverfismálin, 68% af fækkun ríkisstarfsmanna voru hjá heilbrigðisráðuneytinu, hefðu átt að vera 38% að öllu óbreyttu.

Hv. þingmaður gerir sér grein fyrir fráflæðisvandanum sem mun aukast gríðarlega og það er kostnaður fyrir Landspítalann á meðan fólk kemst ekki út af honum. Sá kostnaður mun hækka ef okkur tekst ekki að leysa þann vanda. Á sama hátt verður aukið álag og kostnaður á Landspítalanum ef heilsugæslan virkar ekki. Hv. þingmaður segir: Ég vil ekki einkarekstur. Ég veit ekki hvar hv. þingmaður býr í Kópavogi en ef hún býr í Salahverfi þá nýtir hún sér kosti einkarekinnar þjónustu. Hún var boðin út á sínum tíma og hún kemur vel út fyrir skattgreiðendur og kemur afskaplega vel út í þjónustukönnunum. Ef menn líta á norræna módelið, skiptir ekki máli hvort það er Svíþjóð, Noregur eða Danmörk, þá hafa menn farið þá leið og það er ekki af því að hægri menn stýra þar, svo hefur líka verið í tíð sósíaldemókratanna.

Ég hvet hv. þingmann til að hugsa. Ég veit að það er orðið sjónarmið í Samfylkingunni — hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir er mjög afgerandi hvað það varðar að vera á móti þessu sem gerir að verkum að vandinn, sem er 20 ára gamall, verður áfram til staðar. Ég var að lýsa því hér, þegar ég kom að heilsugæslulæknunum, að læknar vilja augljóslega ekki fara í þetta umhverfi.

Ég hvet hv. þingmann til að kynna sér hvað var gert á Norðurlöndunum, (Forseti hringir.) hvað systurflokkar Samfylkingarinnar gerðu þar, áður en hún blæs af þennan einkarekstur. Ég hvet hana einnig til að kynna sér einkarekstur í Salahverfinu áður en hún blæs það út af borðinu.