145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:19]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur fyrir ræðuna. Hún fór yfir ansi margt og tókst á tíu mínútum að fara yfir marga gríðarlega mikilvæga þætti þegar kemur að því hvernig samfélag við ætlum að hafa hér til frambúðar.

Mig langar í fyrra andsvari mínu að ræða við hv. þingmann um það sem hún sagði varðandi það hvort við værum sátt við það að fjöldi fólks lifði á jafnvel undir, vil ég segja, 200 þús. kr. á mánuði í framfærslu og ef við værum það ekki, hvernig við ætluðum að laga það. Mig langar að tengja það við ummæli hæstv. fjármálaráðherra sem meira en ýjaði að því að ef bætur yrðu of háar og yrðu jafnvel sambærilegar við lágmarkslaun þá mundi það verða til þess að fólk og þá sérstaklega ungir karlmenn mundu vilja fara á bætur vegna þess að það væri betra á einhvern hátt að vera á bótum en að vinna. Nú vil ég segja í fyrsta lagi að það að verða sér úti um örorkuskírteini er ekki eitthvað sem maður fær í seríóspakka. Það er langt og strangt ferli. Það get ég alveg vottað um.

Erum við ekki að fara með samfélagslegu umræðuna á dálítið hættulegan stað þegar fjármálaráðherra landsins er í raun farinn að tala fyrir því að lífeyrisgreiðslur í landinu eigi nánast „prinsippelt“ að vera lægri en lágmarkslaun? Erum við þá ekki komin á dálítið skrýtinn stað með velferðarsamfélag okkar?