145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:21]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég man ekki tölurnar en það eru nokkrir tugir þúsunda Íslendinga sem fá lífeyri. (Gripið fram í.) Þetta eru stórir hópar. Af þeim eru þeir sem eru á örorku um 16–17 þúsund og af þeim eru um 1.600 undir þrítugu svo að við smættum myndina aðeins og áttum okkur á út frá hverju fjármálaráðherra alhæfir um allan hópinn. Ég á dálítið erfitt með röksemdafærslu hans og er ósammála honum. Ég tel jú að alltaf sé einhver hópur öryrkja sem geti mögulega unnið með eða fengið stuðning, einhvern langtímastuðning, til að komast aftur út á vinnumarkaðinn en sá hópur er því miður frekar lítill. Aðrir eru langveikir eða fatlaðir og eru í þannig stöðu að það er ekki gerlegt.

Þá verðum við að spyrja okkur þessarar samviskuspurningar: Hvernig ætlum við þessu fólki að lifa? Ég vil að það sé með reisn. Ég veit að við deilum því að fólk geti lifað hér með reisn og þá sníður maður ekki kerfið allt saman utan um alla út frá því að maður telji að einhver lítill hópur í þessum stóra hópi þurfi sérstakan stuðning og geti farið aftur út á vinnumarkaðinn, heldur akkúrat öfugt. Við göngum frekar út frá því að markmiðið sé að tryggja að fólk hafi vel í sig og á. Það finnst mér vera algert lykilatriði í þessu.

Mér finnst óeðlilegt að vilja ekki að lífeyrir haldi í við lægstu laun vegna þess að það sé ekki sanngjarnt gagnvart þeim sem vinna fyrir lágmarkslaun. Ég skil ekki af hverju er verið að etja þessum hópum saman. Mér finnst (Forseti hringir.) það í grunninn rangt því að þetta eru eðlisólíkir hópar.