145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:24]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það sem mér finnst gera fjárlagaumræðuna svo skemmtilega er að við erum þó að ræða um samfélag okkar. Þetta er alveg gríðarlega mikilvægur angi af þeirri samfélagsumræðu sem er mikilvægt að taka. Ég held að það sé svo sem ekkert verra að gera það hér undir þessum lið en einhverjum öðrum því að þetta snýst einmitt um það hvernig við ætlum að útdeila fjármunum.

Ég held reyndar að við þurfum að hafa kerfið þannig að fólk geti mögulega farið út á vinnumarkaðinn. Ég er þeirrar skoðunar að það að búa við ákveðið fjárhagslegt öryggi — rannsóknir hafa meira að segja sýnt það og styrkt það — sé hreinlega hvetjandi til að fara út í samfélagið og taka þátt. Þess vegna þurfum við auðvitað að hugsa um heildarkerfið og hafa það þannig að fólk hafi viðunandi framfærslu en það séu líka hvatar fyrir það til að verða virkt í samfélaginu. Það getur síðan sparað á öðrum stöðum í ríkisrekstrinum vegna þess að fólk sem tekur þátt og er vel fúnkerandi þarf minni læknisþjónustu. Alls konar kvillar eru afleiðing af því að búa við fátækt og vera vanvirkur og það kostar helling. Þetta kostar auðvitað allt peninga, þ.e. að reka gott og vel fúnkerandi velferðarkerfi.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún sé sammála mér að það sé ástæða til að hafa áhyggjur af framhaldinu vegna þess að hægt sé að sjá það, t.d. þegar fjárlagafrumvarpið er skoðað, að stefna þessarar ríkisstjórnar til framtíðar sé að draga enn meira saman í samneyslunni. Hvernig eigum við að (Forseti hringir.) geta rekið hér heilbrigðis- og velferðarkerfi þegar við eigum (Forseti hringir.) nú þegar í erfiðleikum með það?