145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:21]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þessi fjárlagaumræða hefur verið löng af því að hér hefur verið tekist á um stór og mikilvæg pólitísk álitamál. Það sem okkur þingmönnum gefst tækifæri á að gera í þessari atkvæðagreiðslu er til dæmis að bæta kjör lífeyrisþega til jafns við launþega og bæta þannig kjör viðkvæmustu hópanna í landinu. Okkur gefst líka tækifæri á að rétta enn betur við stöðu Landspítalans sem lýst hefur sinni skoðun á frumvarpinu og telur vanta fjármuni. Hér hafa því hv. þingmenn úr öllum flokkum haft tækifæri til að gera góða hluti.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs munum sitja hjá við flestar af tillögum meiri hlutans því að við teljum að heildarstefna frumvarpsins sé röng. Heildarstefna frumvarpsins sýnir þá stefnu að draga úr samneyslu. Hún er angi af sömu stefnu sem snýst um að fletja út skattkerfið og draga úr samneyslunni sem við eigum saman og þess vegna munum við sitja hjá við flestar tillögur. En að öðru (Forseti hringir.) leyti munum við lýsa afstöðu okkar í umfjöllun um einstakar tillögur.