145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:22]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Fjárlagafrumvarpið er helsta stefnuplagg hæstv. ríkisstjórnar. Við í Bjartri framtíð munum sitja hjá í langflestum tilvikum en við munum auðvitað styðja góðar breytingartillögur minni hlutans sem gerðar eru til þess að bæta úr og setja mennskari blæ, ef svo má segja, á fjárlögin þar sem við leggjum áherslu á kjarabætur fyrir öryrkja og ellilífeyrisþega, við leggjum áherslu á að byggja upp Landspítalann og stofnanir sem búið hafa við mikinn niðurskurð frá hruni. Tillögur okkar eru í grunninn hugsaðar þannig að íslenskt samfélag rísi sameinað upp úr vandræðunum en ekki að sumir hópar rísi á kostnað annarra.