145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:24]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum núna atkvæði um fjárlögin. Það er ánægjulegt að við erum á réttri leið. Fjárlögin eru hallalaus, sem er gríðarlega mikilvægt. Við erum enn og aftur að forgangsraða í heilbrigðismálin og í lífeyristryggingar og ég hvet alla þá sem hafa áhuga á þeim málum, og ég vona að þeir séu sem flestir, að kynna sér þar staðreyndir mála. Ég vona að þrátt fyrir að umræðan hafi verið eins og hún hefur verið muni hún þó verða til þess að við höldum áfram að ræða þau mikilvægu mál, því að fram undan eru mjög stór verkefni og áskoranir fyrir íslenska þjóð. Það sem mér hefur hins vegar fundist vanta í umræðuna, bæði hér í þingsal og í þjóðfélaginu, er að við þurfum að forgangsraða. Það þýðir að við þurfum að spara á ákveðnum sviðum. Ég vona það, virðulegi forseti, að í framhaldi umræðunnar verði sú mikilvæga umræða tekin, því að hún er ekki síður mikilvæg en það sem við viljum setja fjármunina í.