145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:27]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér er kallað eftir því að við ræðum meira um forgangsröðun. Ég vil minna á að ríkisstjórnin ákvað að setja 90 milljarða plús í skuldaniðurfellingu. Við í Bjartri framtíð höfum ítrekað rætt það mál þannig að ég vísa því til föðurhúsanna að hér sé ekki rætt um forgangsröðun. Aðeins brotabrot af þeirri upphæð mundi duga til þess að bæta kjör ellilífeyrisþega og öryrkja. Það er bara þannig.

Eins og fram hefur komið munum við sitja hjá. Það eru margar ágætisbreytingar sem gerðar hafa verið á frumvarpinu. Ég set spurningarmerki við hvað stjórnvöld gera viðamiklar breytingartillögur á eigin frumvarpi. Ég set líka spurningarmerki við þær fjölmörgu breytingartillögur sem koma frá meiri hlutanum og eiga að mínu viti heima inni á safnliðum og í ráðuneytum.

En eins og ég segi eru margir þessara liða góðir, en mér finnast vinnubrögðin ekki góð.