145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:28]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þá er komið að því sem margir hafa beðið eftir, að greiða atkvæði um fjárlög. Það er mikilvægt að hafa í huga að grunnrekstur ríkissjóðs er ekkert sérlega góður, því miður. Hagnaðurinn, sem hefur farið snarminnkandi á milli umræðna, sem ég hef nú trú á að sjálfstæðismenn séu ekki sérlega ánægðir með, byggist að stóru leyti á óreglulegum liðum eins og arðgreiðslum og fleira.

Það er rétt sem hér hefur verið sagt. Frumvarpið hefur tekið gríðarlega miklum breytingum af hálfu ríkisstjórnarinnar, sem bendir til þess að frumvarpið hafi ekki verið vel undirbúið þegar það kom til 1. umr., það er alveg ljóst. Eins hefur meiri hlutinn gert miklar breytingar sem margar hverjar eru mjög athugaverðar, sérstaklega vegna þess að þær byggjast, að manni finnst, á geðþóttaákvörðunum, þ.e. ákvörðunum sem byggjast á því hverjir það eru sem sitja í fjárlaganefnd og hverjir hafa aðgang að fjárlaganefndarfólki. Það eru ekki góð vinnubrögð að færa safnliðina aftur til fjárlaganefndar. (Forseti hringir.) Þeir eiga heima í faglegu ferli í ráðuneytunum.