145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:29]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að óska hv. þingmönnum, og ekki hvað síst hv. fjárlaganefnd, til hamingju með þann undirbúning sem farið hefur fram fyrir þessa atkvæðagreiðslu að lokinni 2. umr. um fjárlög, sem eru í senn mikil framfarafjárlög, í raun endurreisnarfjárlög en um leið jafnaðarfjárlög því að við sjáum að með þeim er verið að festa í sessi árangur ríkisstjórnarinnar í að bæta kjör allra. Reyndar er það svo, virðulegur forseti, ólíkt því sem haldið hefur verið fram hér í algjöru kæruleysi, ég treysti því að menn fari ekki viljandi rangt með, að jöfnuður hefur ekki mælst meiri á Íslandi en undir stjórn þessarar ríkisstjórnar og hefur haldið áfram að aukast. Munur á kjörum fólks hefur ekki verið jafn lítill og nú, í tíð þessarar ríkisstjórnar, kaupmáttur bóta hefur ekki verið meiri. Að sjálfsögðu höldum við áfram að bæta þar í, en það gerum við af skynsemi og með þeim aðgerðum (Forseti hringir.) sem lýst er í fjárlögunum.