145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:35]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Þegar komið er að atkvæðagreiðslu við 2. umr. fjárlaga vil ég benda á auglýsingu sem birtist í blöðum í dag þar sem fram kemur að 95,4% Íslendinga eru ósammála ríkisstjórninni. Ég veit reyndar ekki hver þessi 4,6% eru, það er sennilega ríkisstjórnin. Hér er bent á hvernig ríkisstjórnin hefur fundið breiðu bökin í landinu og hverja á að ráðast á. Ráðist er á aldraða og öryrkja með því að neita afturvirkum bótum, með því að neita hækkun á næsta ári sem allir aðrir fá og með því að meðal annars opna sendiráð og endurreisa embætti húsameistara ríkisins og búa til einhverja nýja ferðamálastofnun til að vinna með hinum ferðamálastofnunum í landinu. Það er forgangsröð þessarar ríkisstjórnar.

Ég verð að segja, virðulegi forseti: Skammist ykkar, stjórnarþingmenn, fyrir að koma svona fram við okkar minnstu bræður og systur!