145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:39]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér gumar hæstv. fjármálaráðherra sig af bættum hag ríkissjóðs. En hvernig er verið að nota svigrúmið (Fjmrh.: Í laun.) sem nú er að skapast? Það er ekki verið að nota það til aldraðra og öryrkja. (Fjmrh.: Víst.) Nú höfum við, stjórnarandstaðan, barist í átta daga og sjö nætur fyrir kjörum aldraðra hér í þingsal, að þeir fái sambærilegar kjarabætur og fólk á vinnumarkaði og sitji ekki eftir eins og fjárlög stjórnarflokkanna fela í sér. Við höfum barist fyrir Landspítalann, að framlag til Ríkisútvarpsins verði ekki skert og nú er algjörlega orðið ljóst að ríkisstjórnin hefur engin áform um að taka til baka svik sín við aldraða og öryrkja né heldur að rétta hlut þjóðarsjúkrahússins eða Ríkisútvarpsins sem er stærsta menningarstofnun landsins. Við munum halda áfram þessari baráttu þó að nú verði að láta (Forseti hringir.) lokið umræðum við 2. umr. (Forseti hringir.) En það verður nöturlegt fyrir almenning og sérstaklega aldraða og öryrkja að fylgjast með atkvæðagreiðslunni hér rétt á eftir.