145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:42]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér koma menn upp með fullyrðingar algjörlega úr tengslum við raunveruleikann, halda til dæmis áfram að lýsa því yfir að ójöfnuður sé að aukast, sem er bara rangt. Það sem er rétt í þeim efnum er að jöfnuður hefur ekki verið jafn mikill og nú. (Gripið fram í: Hvað er mælikvarðinn?) Svo kemur hér hv. þm. Kristján Möller (Gripið fram í.) og heldur því fram að það sé hneyksli að þessi ríkisstjórn hækki ekki bætur afturvirkt. Hann gleymdi alveg að rekja það hvernig síðasta ríkisstjórn hefði hækkað bætur afturvirkt aftur og aftur, eða hvað? Gerði hún það kannski ekki? [Kliður í þingsal.] Er það ekki tilfellið, (Forseti hringir.) virðulegur forseti, að verið er að hækka bætur til samræmis við launaþróun (Gripið fram í: Nei.) þó að það gerist á öðrum tímapunkti (Gripið fram í: Rangt.) en launahækkanir? (Gripið fram í: Rangt.) Það sem (Forseti hringir.) stjórnarandstaðan hefur haft fram að færa hér er ekkert annað en ómerkileg brella. Verið er að reyna að slá ryki í augu fólks, reyna að gera menn óánægða með því að halda því fram að [Kliður í þingsal.] verið sé að svíkja þá um eitthvað sem þeir [Kliður í þingsal.] hafi átt inni (Forseti hringir.) þegar raunin er sú …

Virðulegur forseti. Ég verð að fá að tala aðeins fram yfir (Forseti hringir.) tímann því að ég heyri varla í sjálfum mér fyrir hrópunum og köllunum, því að það er viðkvæmt mál að bent sé á staðreyndirnar í þessu efni. Staðreyndin er sú (Forseti hringir.) að verið er að bæta kjör eldri borgara og öryrkja til samræmis við þróun á vinnumarkaði (Forseti hringir.) og bæta þau miklu meira, hvort heldur sem er í prósentum eða (Forseti hringir.) krónutölu, en síðustu ríkisstjórn tókst nokkurn tímann. (Gripið fram í: Þetta er rangt.)