145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:45]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það hefði nú verið ánægjulegt ef hæstv. forsætisráðherra hefði áfram verið með okkur í umræðunni og átt við okkur samtal um einmitt það sem hann kom inn á áðan. Þá hefði hann fengið þær upplýsingar að það var einmitt gert á miðju ári 2011, þá komu töluverðar hækkanir á grunnlífeyri vegna þess að kjarasamningar voru gerðir það ár. Þá var það pólitísk ákvörðun að skilja ekki eftir eldri borgara og öryrkja í þessari þróun eins og verið er að taka ákvörðun um núna.

Virðulegi forseti. Við getum karpað um þetta fram og til baka. Staðreyndin er hins vegar sú að þúsundir eldri borgara og öryrkja þurfa að draga fram lífið á um 200 þús. kr. á mánuði eftir skatt. Svari því nú hver fyrir sig hvort hann mundi treysta sér til þess. Ég held að allir hér inni svari þeirri spurningu neitandi. Eigum við þá ekki frekar að reyna að sameinast um (Forseti hringir.) að gera eitthvað í því en að taka við svona sendingum frá ríkisstjórninni?