145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:53]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að heyra forsvarsmenn ríkisstjórnarflokkanna birtast hér og fara mikinn í miklum æsingi og reyna að halda fram þeirri mynd að verið sé að mæta öldruðum og öryrkjum með sambærilegum hætti og öðrum. Staðreyndirnar tala öðru máli.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði í vikunni að það væri sjálfstætt markmið að passa að lífeyrisþegar fengju ekki það sama og láglaunafólk. Það sagði hann mjög skýrt og greinilega. Í greinargerð ráðherrans sjálfs með fjárlagafrumvarpinu segir að markmiðið á næstu árum sé að hlutfall tilfærslna í ríkisbúskapnum minnki. Framlögin sem hlutfall af samneyslunni til lífeyrisgreiðslna fari minnkandi. Menn geta barið sér á brjóst og farið fram með falskar staðreyndir eins og þessir ágætu herramenn gera báðir. (Gripið fram í.) En staðreynd málsins er sú að í átta mánuði á þessu ári og í átta mánuði á næsta ári munu lífeyrisþegar bera skarðan hlut frá borði í samanburði við lágtekjufólk. (Forseti hringir.) Það er ákvörðun þessa stjórnarmeirihluta og einbeittur vilji forustumannanna beggja.