145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:01]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég var ekki á þingi á seinasta kjörtímabili og hef engum verkum af að státa frá þeim tíma og engin til að skammast mín fyrir heldur.

Mig langar að benda á ákveðna staðreynd sem er sú að 120 milljarða kr. halli hefur tilhneigingu til að skipta máli þegar kemur að útgjöldum ríkissjóðs. Sá halli lagaðist árið eftir, fór niður í 90 milljarða og niður í 60 milljarða árið þar á eftir og síðan niður í 30 milljarða. Ári eftir það, árið 2013, þegar fyrrverandi ríkisstjórn hætti og núverandi ríkisstjórn tók við, fór hann niður í sirka núll.

Að mínu mati ætti núverandi hæstv. ríkisstjórn að þakka síðustu ríkisstjórn (Gripið fram í: Icesave þá …) fyrir að geta þó farið að taka eitthvað til baka og farið að gera eitthvað af viti með fjárlögin. Það var ekki hægt á seinasta kjörtímabili eins og ríkisstjórnin veit, þetta er staðreynd; 120 milljarðar í mínus skipta máli, virðulegi forseti. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Og menn láta eins og hálfvitar, [Kliður í þingsal.] með fullri virðingu, þegar þeir þykjast ekki skilja þetta.