145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:02]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er nokkuð merkilegt að verða vitni að þessari atkvæðagreiðslu þar sem tölur sýna að hér hefur aldrei ríkt meiri jöfnuður en nokkru sinni áður. (Gripið fram í.) Hér er hreinlega [Frammíköll í þingsal.] verið að fara með rangt mál þegar þingmenn halda öðru fram.

Nú skulum við aðeins fara aftur í tímann því að þeir sem hafa sem hæst eru þingmenn fyrrverandi ríkisstjórnarflokka sem ætluðu að skuldbinda skattgreiðendur framtíðarinnar með Icesave-klyfjunum. Þær voru svo þungar að á tímabili leit út fyrir að þær næmu heilum Landspítala á hverju ári. Hvar værum við þá, (Gripið fram í: Vú!) virðulegi forseti, ef fyrri ríkisstjórn hefði náð því markmiði sínu? Hvar værum við þá? Þá værum við ekki í því uppbyggingarferli sem núverandi ríkisstjórn hefur staðið fyrir. Við værum á (Gripið fram í.) allt öðrum stað. Þetta virkar þannig á mig að hér sé um mjög tapsára einstaklinga að ræða. (Gripið fram í: … Icesave.) (LRM: Hver borgar Icesave?) Uppreisnartímabil íslensks samfélags er runnið upp og það er gleðiefni. (Gripið fram í: Rökþrot …) [Háreysti í þingsal.]

(Forseti (EKG): Forseti biður nú um hljóð, bæði á meðan á ræðum hv. þingmanna stendur og á eftir svo að forseti geti að minnsta kosti kynnt þingmenn sem vilja taka til máls.)