145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:05]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hluti af dómsmálinu sem Ísland vann blessunarlega var unninn vegna viðleitni stjórnvalda á síðasta kjörtímabili. (Gripið fram í.) Það er ekki hægt að láta eins og Framsóknarflokkurinn hafi einhvern veginn með sverði sínu og skildi sigrað þann slag. (Gripið fram í.) Það var að hluta til heppni og það voru að hluta til afleiðingar aðstæðna sem hér voru og að hluta til, eins og kemur fram í dómnum, viðleitni fyrri ríkisstjórnar sem gerði okkur kleift að vinna það mál.

Nú ætla ég að ítreka: Það vita allir hér á þingi að mínus 120 milljarðar skipta máli. Það vita allir að 50 er stærri tala en 25. Þetta er ekki flókið. Þegar menn koma í pontu og fara að bera saman hvað fyrri ríkisstjórn á að hafa gert undir þeim kringumstæðum er það ekki trúverðugt út frá mínu sjónarhorni. Mig langar að biðja hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans að hætta að láta eins og þetta séu sambærilegar aðstæður því að þeir vita, eins og staðreyndir sýna, að það er einfaldlega ekki tilfellið.