145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:10]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við erum hér að fara að greiða atkvæði um það hvort vilji sé til þess að hækka bætur lífeyrisþega í samræmi við hækkanir sem aðrir hópar hafa fengið á þessu ári. Mér heyrist hæstv. ríkisstjórn ekki treysta sér til þess og ég hef áhyggjur af því að það sé hreinlega vegna þess að það sé partur af pólitískri stefnumótun, sem meðal annars kom fram í máli hv. þm. Páls Jóhanns Pálssonar, og hefur einnig komið fram í máli hæstv. fjármálaráðherra, að samfélagsskipunin eigi að vera slík að öryrkjar og aðrir lífeyrisþegar séu alltaf skör lægra settir en lægstu tekjuhópar og þannig skuli það vera samkvæmt pólitískri ákvörðun. Það finnst mér bera vott um lélegt velferðarsamfélag. Ég mun svo sannarlega gera mitt til að berjast gegn því að svo verði hér.