145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:12]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég hlakkaði svolítið til að taka þátt í þessari atkvæðagreiðslu en það er búið að breytast því að það fór aldrei svo að við skyldum ekki skemmta landsmönnum svolítið hressilega með því leikriti sem er búið að eiga sér stað núna síðasta klukkutímann. Ég vil eiginlega leggja til við þá sem voru í stjórn á síðasta kjörtímabili og eru hér enn í þingsal og þá sem eru í stjórn núna og voru áður í stjórnarandstöðu að leigja sér bara sal úti í bæ og útkljá þessi mál í eitt skipti fyrir öll og hlífa okkur hinum við þeirri pissukeppni sem á sér stað alla tíð hérna. Við getum deilt um fjárlagafrumvarpið og hvort það sé gott eða vont. Mér finnst það ekkert rosalega gott og kannski sérstaklega vegna þess að við erum ekki að borga afturvirka kjarabót til öryrkja og aldraðra. (VigH: Víst.) Um það snýst þetta. Nei, hv. þm. Vigdís Hauksdóttir. Það er ekki rétt.

Það stendur í stjórnarsáttmálanum að samfélagið sé samvinnuverkefni þar sem allir haldast í hendur til að búa til gott samfélag. Við erum ekki að borga þessi laun til baka eins og allir aðrir fá. Um það snýst málið. Þið viljum það ekki og það er bara ykkar mál. (Gripið fram í.) Förum að greiða atkvæði um þessi fjárlög.