145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:16]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Svo maður tali bara um a-liðinn í þessum tillögum þá finnst mér ástæða til að benda á að stöðugt og reglubundið berast fréttir af því að mjög stór alþjóðleg fyrirtæki borgi alls ekki þann skatt á Íslandi sem þau ættu að gera og nota til þess alls konar bókhaldsbrellur til að flytja hagnað úr landi. Þannig að hér má vel gefa í og ná í meiri tekjur.

Svo vil ég almennt segja um allar þessar tillögur um tekjuaukningu að mér finnst ríkisstjórnin hafa verið mjög kærulaus á tekjuhliðinni og mér finnst hún hafa gefið eftir allt of mikið af augljósum tekjum eins og af erlendum ferðamönnum svo dæmi sé tekið.

Við gerum tillögu um áframhaldandi orkuskatt sem mér finnst alveg sjálfsagt mál og við höfum verið algjörlega samkvæm sjálfum okkur í því að benda á að það er vel hægt að hafa meiri tekjur eins og áætlað var af veiðigjöldum. Það er blússandi uppgangur í sjávarútvegi og jafnvel þótt það hefði þurft að breyta einhverju í samsetningu gjaldanna til að gera þau réttlátari þá mátti vel halda sömu tekjum.

Þetta eru góðar tillögur og ég hvet ríkisstjórnina til meiri aga á tekjuhliðinni í framtíðinni.