145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Hér sannast enn og aftur að þegar menn segja tímabundnir skattar þá meina menn auðvitað varanlegir skattar. Þegar þessum skatti var komið á á sínum tíma var hann kynntur sem tímabundinn skattur en menn meintu auðvitað ekkert með því. Það hefur komið aftur og aftur í ljós. Sama gildir með aðra skatta sem vinstri stjórnin sagði að ættu að vera tímabundnir.

Hér er röð af sköttum sem er auðvitað ætlað að fjármagna útgjöld. (Gripið fram í.) Þetta er partur af útgjaldaáætlun stjórnarandstöðunnar. Hérna er sú taktík farin að finna nógu fámennan hóp sem er nógu óvinsæll í samfélaginu og hækka svolítið vel skattana á hann. Útgerðin, stóriðjan, mér sýnist að það séu útrásarvíkingar og síðan eru það bankarnir.

En þetta eru auðvitað ekki eiginlegar tekjuáætlanir vegna þess að það er verið að reyna að skammta sér tekjur. Þetta er bara yfirvarp. Það er verið að breiða yfir það sem er aðalatriði tillögunnar í reynd, að menn eru að leggja til fyrir öllu þessu ný útgjöld.