145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:27]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á málflutningi hv. stjórnarandstæðinga sem tala um að ekki sé verið að nýta skattstofna og það sé alltaf verið að gera eitthvað á hlut þeirra sem minna mega sín. Um leið gagnrýna þeir að hæstv. ríkisstjórn setti sérstaklega bankaskatt á fjármálafyrirtæki. Ég átta mig ekki alveg á málflutningi þeirra. Það er nokkuð sem ríkisstjórnin gerði og er alveg kórrétt, að lagður var sérstakur skattur á fjármálastofnanir og slitabú. Ég held að það hafi verið afskaplega skynsamlegt.

Hér er hins vegar, svo að menn séu algerlega meðvitaðir um það, hv. stjórnarandstaða búin að tala um mikilvægi Bankasýslunnar, ég ætla ekki að segja endalaust en mjög lengi í þinginu. Það er reglan sem er í gangi að fara eftir Bankasýslunni þegar er verið að meta arð, en hv. stjórnarandstaða vill ekki gera það. Nú skiptir það auðvitað engu máli, arðurinn kemur inn hvort sem er. Þetta eru engar nýjar tekjur, (Forseti hringir.) þetta eru bara enn einar froðutekjurnar hjá hv. stjórnarandstöðu því að hún (Forseti hringir.) treystir sér ekki (Gripið fram í.) til að fjármagna útgjaldatillögur sínar.