145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:44]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Hæstv. fjármálaráðherra kallaði aðra tillögu okkar í minni hluta hóflega. Það er alveg rétt, tillögur okkar eru hóflegar. Við gerum okkur vonir um að fá þær samþykktar af þingmönnum stjórnarmeirihlutans. Þetta er hófleg tillaga, mjög hófleg. Hún gengur út á það að útvarpsgjald verði óbreytt, það lækki ekki. Ég tek undir með hv. þm. Birgittu Jónsdóttur sem lýsti því ágætlega áðan að hún hefði ekki orðið vör við að nokkur væri að biðja um að útvarpsgjaldið yrði lækkað. Ég held að mjög mikil samstaða ríki meðal þjóðarinnar um að hafa ríkisútvarp.

Ríkisútvarpið hefur staðið vel að rekstri sínum með nýrri framkvæmdastjórn undanfarið en nú er einfaldlega komið að krossgötum og nú þurfa þeir eða þau okkar hér sem vilja hola Ríkisútvarpið að innan, grafa undan hlutverki þess sem hornsteini íslenskrar menningar og lýðræðisumræðu, að segja það bara skýrt að þau séu að stefna þangað. (Forseti hringir.) Ég auglýsi eftir sýn stjórnarmeirihlutans á það hvað RÚV á að verða. Það er komið að krossgötum í þeim efnum ef þessi tillaga verður felld. Ég segi já.