145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:49]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mér þykir mjög dapurlegt að almannaútvarpið skuli vera bitbein við fjárlagaumræðu ár eftir ár. Ef við reynum að læra af öðrum þjóðum sem allar reka almannaútvarp og þegar við lítum til nágrannaþjóða okkar í Evrópu þá er þetta nákvæmlega ekki leiðin til að gera hlutina.

Mér finnst gríðarlega dapurlegt að ekki hafi náðst að skapa þverpólitíska sátt um stefnumótun og framtíðarsýn fyrir Ríkisútvarpið, sátt sem ég taldi hæstv. menntamálaráðherra vera að vinna að þegar hann sté hér fram í vor og lofaði því að fram kæmi frumvarp þar sem lækkun útvarpsgjaldsins, sem núverandi stjórnarmeirihluti samþykkti við sín fyrstu fjárlög hér 2013, yrði afturkölluð. Mér finnst dapurlegt að sjá að hæstv. ráðherrann nýtur ekki stuðnings flokksmanna sinna og samstarfsflokks síns. Mér finnst það sýna mjög dapurlegt viðhorf (Forseti hringir.) gagnvart almannaútvarpinu, okkar stærstu menningarstofnun. (Forseti hringir.)

Við ættum að gera miklu betur. Þess vegna segi ég já.