145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:54]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ríkisútvarpið er þýðingarmesta menningarstofnun landsins og fjölmiðill sem hefur gríðarlega mikilvægu lýðræðishlutverki að gegna. Þetta er eina almannaútvarpið, eini almenningsfjölmiðillinn, sem við eigum í þessu landi. Þetta er fjölmiðill sem við höfum vaknað við á morgnana og sofnað við á kvöldin í 85 ár. Hann hefur verið snar þáttur í lífi okkar, mótað sjálfsvitund okkar og verið með okkur í blíðu og stríðu. Við eigum að standa með þessari mikilvægu stofnun, styðja hana og það lýðræðislega hlutverk sem hún hefur með höndum. Að sjálfsögðu segi ég já.