145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:21]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég held að það hafi komið glöggt í ljós undanfarin ár hversu mikilvægt hlutverk umboðsmanns Alþingis er fyrir lýðræðissamfélag. Mig langar að skora á þingheim að endurskoða þessa ákvörðun milli 2. og 3. umr. Það kemur skýrt fram í áliti hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2014 að umboðsmann vantar fjármagn til að geta sinnt frumkvæðisrannsóknum. Það er meðal annars talað um að það þurfi alla vega 15 milljónir til að geta veitt þessum málaflokki, þ.e. frumkvæðisrannsóknum, sérstaka athygli. Ég held að við sem þingheimur og við sem hv. þing eigum að sinna umboðsmanni Alþingis og gefa honum þann fjárhagslega stöðugleika sem hann þarf til að geta sinnt verkefnum sínum.