145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:32]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við leggjum hér til verulega aukningu til háskóla- og rannsóknastarfsemi sem ætti að vera metnaðarmál okkar allra. Ég vil minna á að þegar samþykkt var að stofna Aldarafmælissjóð Háskóla Íslands fylgdi því ákveðin stefnumótandi hugsun sem miðaðist við að við mundum markvisst hækka framlög til Háskóla Íslands og síðar háskólastigsins alls þannig að þau yrðu fyrst sambærileg við meðaltal OECD-ríkja og síðan við meðaltal nágrannaríkja okkar. Sú stefnumótun hefur ekki farið fram. Ég hef beðið í tvo og hálfan mánuð eftir svari frá hæstv. forsætisráðherra við fyrirspurn sem hér var lögð inn í byrjun október, um hvað stefnumótun í kringum Aldarafmælissjóðinn líði. Við leggjum til verulega aukningu til háskóla- og rannsóknastarfsemi en ég legg líka til að farið verði af stað í þá stefnumótun sem við samþykktum að ráðast í 2011 í staðinn fyrir að dreifa hér fjármunum með ómarkvissum hætti, án þess að heildarsýn liggi fyrir. Þetta er jú lykillinn að velsæld okkar til framtíðar og ég styð þessa tillögu.