145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:42]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Íslenska tungan á undir högg að sækja og mun halda áfram að eiga undir högg að sækja eftir því sem líður á 21. öldina. Ef við ætlum að halda í tungumál okkar og vera áfram læs á eigin sögu, sem dæmi, til lengri tíma þá verðum við að fjármagna það. Við getum ekki ætlast til þess að íslenskan lifi sjálfkrafa af ef við leggjum ekkert til. Það mun kosta okkur peninga. Spurningin hér er hvort við ætlum að styðja við það með því að hjálpa til við íslenskukennslu útlendinga. Það er sér í lagi mikilvægt að þeir hafi aðgang að okkar yndislega máli ef þeir ætla að verða læsir á sögu okkar og sömuleiðis ef þeir ætla að komast almennilega inn í okkar menningu, sem flestir þeirra ef ekki allir vilja vissulega gera.

Mér þykir leitt að sjá hvernig atkvæðagreiðslan virðist ætla að fara en get bara ítrekað að ef við ætlum að halda í þetta mál verðum við að borga fyrir það. Það er ekkert annað í boði.