145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:46]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vek athygli hv. þingmanna á að hér er enn verið að bæta fjármunum til nýrrar stofnunar, Menntamálastofnunar. Hér hefur verið vakin athygli á því að í fyrsta lagi virðist ekki vera nein skýr stefna af hálfu ríkisstjórnarinnar um það hvort verkefni eigi heima í opinberum stofnunum eða inni í ráðuneytum og ýmist er verið að stofna nýjar stofnanir eða færa stofnanir inn í ráðuneyti. En hins vegar er áhugavert að sjá að þessi stofnun sem áætlað er að fái um það bil milljarð á næstu fimm árum í læsisverkefni stækkar á sama tíma og skattur hefur verið hækkaður á bækur og íslenskir höfundar, sérstaklega barnabókahöfundar, lýsa áhyggjum af ónógum stuðningi við gott og skemmtilegt lesefni handa börnum. Við ættum að velta því fyrir okkur hvort þetta sé röng forgangsröðun þegar við viljum efla læsi barna.