145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:05]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Við greiðum atkvæði um að setja fjármuni í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Þessi liður hefur verið mikill vandræðaliður hjá hæstv. ríkisstjórn og hæstv. ferðamálaráðherra hefur átt í erfiðleikum með að áætla hvað þyrfti margar krónur til að byggja upp á ferðamannastöðum og innviðum friðlýstra svæða. Þarna er verið að setja 517 milljónir til viðbótar þeim 149 sem áætlað var í upphafi árs, eins spaugilegt og það nú var. Ég er hissa á því að ekki skuli standa þarna 750 milljónir eins og kom fram á fundi fjárlaganefndar að óskað hefði verið eftir af hálfu ráðuneytisins. Þarna er búið að klípa upphæðina niður í 517 þannig að samtals verða 666 milljónir í Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Það er sannarlega betra en 149 milljónir en það er minna en það sem ráðuneytismenn sögðu að þyrfti á árinu 2016.