145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:06]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er alveg augljóst að þetta er búið að vera olnbogabarn frá því að ríkisstjórnin tók við. Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða hefur verið getið af hálfu minni hlutans við hverja einustu fjárlagaumræðu þar sem sá sjóður hefur ekki fengið tilhlýðilegt fjármagn. Síðan kemur hæstv. ráðherra og segir að það sé þeim að kenna sem þurfa að standa að uppbyggingunni af því að þeir séu ekki nógu tímanlega á ferðinni. Þetta er því miður mikil óvirðing við það fólk sem þarf að bíða eftir því að vita hvort fjármunir komi og hvort þeir komi tímanlega. Hér hefur verið sett aðeins inn í fjárauka vegna þess að ráðherra hefur runnið á rassinn með þær tillögur sem fram hafa komið í þessum málaflokki. Þetta er ekki nóg. Það er alveg augljóst af fram komnum tillögum sem ræddar hafa verið í fjárlaganefnd eins og hér var rakið áðan og afskaplega skrýtið að sitja enn eina ferðina uppi með það að meira að segja ríkið sjálft sem þarf að byggja upp sína staði hefur ekki verið klárt með þá innan tímaramma, að við (Forseti hringir.) ætlum enn og aftur að fara inn í fjárlagaár þar (Forseti hringir.) sem ljóst er að ekki er nægt fé til þessara mála.