145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:08]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það hefur verið alveg ótrúlegur vandræðagangur varðandi fjármögnun á Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Á síðasta ári voru einungis um 145 milljónir í sjóðnum, en þegar leið á sumarið dúkkuðu upp 850 milljónir til að reyna að bæta úr þar sem víða voru vandræði og þörf fyrir fjármagn. En fjármagnið kom allt of seint og enginn undirbúningur hafði orðið vegna þess að menn reiknuðu með að ekki væri meira í sjóðnum en 145 milljónir. Nú leggur meiri hluti fjárlaganefndar til breytingar og bætir í sjóðinn. Hann er þá um 517 milljónir sem er allt of lítið fjármagn. Við fáum gífurlegan fjölda ferðamanna til landsins. Þetta er að verða stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar og við ætlum að draga lappirnar. Við höfum enga framtíðarstefnumörkun í þessum málaflokki og getum ekki séð um uppbyggingu innviða og náttúrunnar og séð til þess að hlutum sé almennilega viðhaldið. Það er skömm að því.