145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:21]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Á þessu ári sem er 100 ára afmælisár kosningarréttar kvenna hafa verið allmargar byltingar ungra kvenna og kvenna á öllum aldri sem hafa stigið fram til þess að ræða um kynbundið ofbeldi. Umræðan hefur stóraukist á þessu ári og fjárveitingavald — sem endurspeglar veruleikann og daglegt líf þessara kvenna og þessi uppgjör — á að bregðast við. Það er afar brýn nauðsyn að styrkja bæði saksóknina, utanumhaldið, rannsóknirnar og lögregluembættin til þess að efla utanumhaldið um þennan málaflokk. Hér leggur minni hlutinn til 200 millj. kr. til ríkissaksóknara og lögregluembættanna til að koma til móts við þessa brýnu þörf og er þær að finna við lögregluembættin og þeim skipt niður á þau eftir því sem atkvæðagreiðslunni vindur fram undir næstu liðum.