145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:42]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Allir sem fylgjast eitthvað með fréttum eða fjölmiðlum vita alveg hvernig ástand mála er í heiminum í dag. Það er því miður hræðilegt. Mikill fjöldi fólks er á flótta, mjög mikill fjöldi vegna stríðsátaka en aðrir flýja aðstæður sem eru engum bjóðandi. Auðvitað leitar fólk þangað sem hagsæld er meiri. Mér finnst okkur bera skylda til, sem einni af ríkustu þjóðum í heimi, að leggja fjármuni í að taka vel á móti þessu fólki þegar það kemur hingað.

Við höfum síðustu daga séð að það getur farið illa ef ekki er vandað vel til verka. Því miður vantar fjármagn inn í þennan málaflokk. Mér finnst við hreinlega bera siðferðislega skyldu til að gera enn betur. Mér þykir mjög dapurlegt að meiri hluti þingheims er mér ekki sammála.